Í dag er merkilegur dagur, bæði virðist ætla að vera veðurblíða á sumardaginn fyrsta og svo er Tjalda.is 10 ára í dag.
Vefurinn naut strax nokkurra vinsælda fyrsta sumarið en ef við berum fyrsta sumarið okkar við sumarið 2018 þá hefur heimsóknum á vefinn fjölgað um 112% og síðuflettingum um 62%. Fyrsta sumarið voru 13 tjaldsvæði sem keyptu skráningu hjá okkur en nú eru þau orðin um 115 fyrir komandi sumar og á þeim eftir að fjölga enn meira.
Á þessum tíu árum höfum við unnið í tveim mismunandi vefkerfum, breytt útliti vefsíðunnar fjórum sinnum og svo tókum við líka í notkun nýtt „logo“ fyrir nokkrum árum.
Einnig höfum við reynt ýmislegt í kynningarstarfinu. Við höfum dreift einblöðungi til að kynna síðuna, tókum þátt í ferðasýningu í Laugardalshöll, vorum með facebook síðu frá upphafi, höfum verið í auglýsingarsamstarfi við Rás 2 frá 2010, vorum í samstarfi við Vegahandbókina, Símann, Sterna og fleiri þar sem vefurinn fékk fína kynningu.
Í þjónustu við þá sem heimsækja okkur höfum við einnig prófað ýmislegt. Við vorum með stjörnukerfi þar sem notendur okkar gátu gefið tjaldsvæðunum frá einni og uppí 5 stjörnur, við gáfum út vikuleg fréttabréf yfir sumarið, við breyttum stjörnukerfinu og gáfum notendum kost á að skrifa umsagnir um tjaldsvæðin, við vorum með „tjaldsvæði vikunnar“ yfir sumarið og margt fleira.
Best þykir okkur þegar við heyrum frá rekstraraðilum tjaldsvæða að margir og í sumum tilfellum flestir gestir þeirra koma á tjaldsvæðið eftir að hafa fundið það á tjalda.is en það var einmitt tilgangur vefsins, að gefa notendum kost á að finna tjaldsvæði við hæfi áður en lagt er af stað í ferðalagið.
Við þökkum ykkur fyrir heimsóknirnar á vefinn og vonum að hann haldi áfram að nýtast á ferð um landið.